Freyja

Týnd í tölvunni

fimmtudagur, desember 30, 2004

Upprennandi barnapíur

Ársól og Emilía fengu að sofa saman hérna í nótt, það gekk ágætlega nema að Emilía átti frekar erfitt að sofna, held að klukkan hafi verið að ganga þrjú þegar hún loksins sofnaði, eftir að ég var búin að senda Gumma inn í herbergi hjá Ársól og við Emilía sváfum í hjónarúminu, hafðist fyrir rest.

Í dag fengum við síðan heimsókn frá Gerðu og strákunum hennar og fóru krakkarnir niður í kjallara að leika og tóku Sigmar Breka (rúml 1 árs )með. Hann var auðvitað látinn vera með í leiknum og var troðið ofaní barnavagna og kerrur og hnoðast með hann eins og dúkku. Honum virtist líka mjög vel við þetta, allavega kvartaði hann ekki mikið. Ársól kom einu sinni upp til að finna smekk þar sem sá litli slefaði of mikið að hennar mati. En þar sem þeim stutta fannst þetta ekkert þægilegur smekkur reyndi hann að taka hann af sér, þau brugðu þá á það ráð að líka smekkinn fastann með þykku teipi......núna sat smekkurinn á réttum stað, festur aftur með 2 hringjum af brúnu límbandi. Þegar ástandið versnaði og Sigmar Breki var farinn að reyna að stinga af fundu þau band sem þau bundu utan um stubbinn og þá fór hann sér ekki að voða!! Enda var hann hafður fyrir hund í leiknum... Sem betur fer tók mamma hans þessu létt þegar hún sá þetta og hló af þessum tilburðum krakkanna, góðar barnapíur þarna á ferðinni. Eða kannski fáum við aldrei að passa svona gutta í bráð, nema undir nákvæmu eftirliti.

miðvikudagur, desember 29, 2004

Greinilegt að bloggeríið sé í jólafríi hérna í Odense borg.

Hérna er allt að gerast eins og vanalega. Borða, borða, borða sofa og lesa horfa á TV og hafa það hrykalega notarlegt eru kjörorð heimilisins. Í gærkvöldi féllu svo nokkrir snjódropar af himnum ofan......bara nokkrir, en nóg til þess að við stukkum út um sjö leitið til þess að prufukeyra nýja sleðann hennar Ársólar. Snjórinn var reyndar ekki meiri en að við þurftum að ýta hvert öðru niður brekkuna, þvíannars sátum við föst ímiðri brekku í grasbunka.... En í morgun var ræst kl 10 og fólki skóflað út og upp í brekku. Þessi brekka var miklu betri enda hafði snjóað ögn meira. Þetta var mjög hressandi og fórum við frekar marga túra. Hittum svo tvo stráka í brekkunni sem voru frekar fyndnir, annar þeirra spurði Gumma

Strákur: "þið eruð ekki danir, hvaðan komiði"
G: Íslandi
Strákur: Hjúkk gott að þið eruð ekki tyrkir, mér er sko alveg sama þótt sé fólk frá Svíþjóð, Norge, eða Íslandi en bara ekki Tyrkir, það er komið allt of mikið af svoleiðis fólki hingað til Danmerkur....

Annars fórum við á lélegasta jólaball sem ég hef farið á. Það var á vegum ísl. félagsins. Jólamennirnir voru algjör mistök, kunnu ekki einu sinni jólalögin og forðuðu sér eftir að hafa trallað við 2 jólalög. Þegar þeir fóru spurði Ársól hvort þetta hefðu ekki verið bara einhverjir að leika.....hvað gat ég annað sagt en júbbs þetta voru bara strákar að plata... Hún hefði heldur aldrei sætt sig við að þetta væru alvöru. "Þetta eru ekki svona ekta jólasveinar eins og hjá jólaballinu hjá afa og ömmu í fyrra.." nei svo sannarlega ekki, því þar komu þeir beint úr ketilaugarfjallinu og þrusuðust inn á snjóugum stígvélunum (hans pabba míns hehe). Nei ég held að hann pabbi minn þurfi að taka þessa "ungu" sveina í smá jólasveinaleiklistarskóla, kenna þeim að gera þetta svo eitthvað vit sé í.

laugardagur, desember 25, 2004

Eru jólin þá búin núna...

einu sinni fyrir langa löngu þegar ég var lítil þá fannst mér eins og jólin væru búin þegar aðfangadagur var liðinn, en það er nú liðin tíð því nú eru þau svo sannarlega bara rétt að byrja. Aðfangadagur leið... með heimþrá og öllu tilheyrandi en var að öðru leiti mjög notarlegur. Fórum og könnuðum lífsmark á raskinu, kíktum inn á nokkur heimili og á sumum þeirra var maturinn tilbúinn og fólk næstum komið í sparifötin, þá ákváðum við að væri tími til kominn að setja steikina okkar í ofninn. Sátum svo agndofa fyrir framan tölvuna og hlustuðum á klukkurnar á Íslandi hringja jólin inn það er alltaf svo hátíðlegt þegar maður heyrir " útvarp Reykjavík, Útvarp Reykjavík Gleðileg jól" . Borðuðum purusteik með öllu tilheyrandi og þar sem bóndinn á bænum er farinn að þekkja konuna sína þá keypti hann sér puru sem ég mátti kroppa í eins og ég vildi ummmm, bara snilld. Borðuðum síðan mandarínufrómas í eftirmat, namm namm. Í dag urðum við að fá okkur smá hjólatúr bara til þess að við yrðum orðin svöng um kaffitímann, fórum í góðann hjólatúr upp í Paarup og skoðuðum kirkjugarðinn þar, sem er rosalega fallegur. Engin rafmagnsljós bara kerti og fallegar skreytingar.

Við vorum líka að borða jólahangikjetið áðan og erum svo södd ennþá að það hefur ekki tekist að vaska upp....dem. Gerum það bara á morgun, já eða hinn.

fimmtudagur, desember 23, 2004

Jólatré í stofu stendur

Jólatréið er komið á sinn stað, á mitt stofugólf var því plantað og þarna fær það að standa eitthvað fram á nýja árið. Það er líka komin jólalykt í húsið, byrjuðum daginn snemma og suðum hangikjetið til þess að fá ekta jólastemmingu. Per sá sem býr á efri hæðinni, hefur ekki litist á blikuna þegar húsið fór að lykta og pakkaði snarlega niður í tösku og hefur nú yfirgefið Danmörku. Greyið strákurinn. Húsið var líka tekið í jólahreingerningu, Gumma var falið það verkefni að þrífa eldhúsið meðan við Ársól byrjuðum á herbergjunum....og stofunni og klósettinu og og og. því það tók heila 4 klukkutíma fyrir drenginn að þrífa þetta eldhús sem er ekki nema 7 fermetrar....geri aðrir betur. Allavega ef hann ætti að taka allt húsið þá kæmu jólin ekki fyrr en einhverntímann á nýja árinu.

Þannig að hérna megin er flest að komast í réttann gír og jólin mega alveg koma núna, ja eða já bara á morgun.

En þið þarna úti við erum loksins komin með Skypið og með því er hægt að tala saman ókeypis í gegnum tölvuna, rosa sniðugt og ekkert mál. www.skype.com endilega skráið ykkur, við erum undir gummifreyjaársól, hlökkum til að heyra í ykkur.

Eigið gott þorláksmessukvöld öll sömul

laugardagur, desember 18, 2004

10 ár...

Jamms í gær 18 des eru 10 ár síðan við GP kynntumst. Gerðist auðvitað á ekta sveitaballi í Sindrabæ, ást við fyrstu sýn hehe... En allavega, mig minnir að ég hafi verið í gúmmískóm og lopapeysu, sem lýsir stemmingunni þarna í sveitinni. Alltaf gaman að fara á böll í Sindrabæ, og þetta var líka sérstaklega gaman. Hitti þarna ungann utanbæjardreng (sem ég hélt að kæmi beinustu leið úr borginni) sem talaði þýsku....og auðvitað hreyfst ég sveitastelpan að þessu öllu. daaa kom nú reyndar í ljós að drengurinn er mesti sveitastrákur sem ég hef hitt og kann ekki baun í þýsku. Fer td í Kringlunna í rekastígvélum.....þið sem ekki vitið hvað það er þá eru það stígvél sem hafa rekið að landi í Ófeigsfirði og þau þurfa ekki að vera af sömu tegund....Alveg sérdeilis smekklegt. Ég reyndi að labba svolítið frá honum svo það sæist ekki að ég væri með þessum sveitalúða. Þannig er hægt að segja að ég hafi verið blind af ást.

Í tilefni dagsins fór Gummi snemma í skólann og við sóttum hann svo kl hálfátta og fórum og sóttum kínverskan mat, namm. Mjög hátíðlegt. En það hátíðlegasta er að við mundum/ eða réttara sagt GP mundi eftir þessu og minnti mig á það!

Og þau lifðu hamingjusöm til æviloka..

fimmtudagur, desember 16, 2004

Umræður á alþingi

Ársól og Ceyda voru að tala saman:
C: Ársól er du alenebarn?
Á: ja det er jeg!
C: hvorfor?
Á: Mor og far snakker HELE tiden om at de vil gernen ha en dreng, men det sker det aldrig noget.......(andvarp)


OK ok hvaðan fær hún svona bull, að við óskum okkur að fá lítinn strák, hvar hefur hún heyrt þetta??? Það sem hún getur tekið upp á að segja, hef nú smá áhyggjur af því sem hún lætur út úr sér í skólanum ...

sunnudagur, desember 12, 2004

Ótrúleg blanda

Eins og ég sagði ykkur í gær, þá elduðum við okkur lifrarpylsu í kvöldmatinn, smakkaðist líka þetta vel, rann bókstaflega niðurí mannskapinn. Lifrarpylsunni kartöflum og hvítri sósu var stappað saman á diskana og þá leit þetta nú bara út eins og ja vil helst ekki segja það en það byrjar á æl...en smakkast á við jólamat nammm. Ég drekk alltaf mjólk með lifrarpylsu, Ársól vildi nú bara fá grænann-djús ( sem mér fannst ekki passa neitt gríðarlega vel við...) en þegar Gummi stökk upp á stól og kifraði upp á eldhússkáp til þess að sækja eðalrauðvín sem var geymt þar þá duttu mér allar dauðar lýs úr höfði.... jábbs drengurinn fékk sér rauðvín með lifrarpylsunni. Talandi um að grænn djús passi ekki við matinn.

laugardagur, desember 11, 2004

Jólasveinninn kemur loksins í nótt. Jábbs hann ætlar að kíkja hérna við þegar hann er búinn að fara hringinn á Íslandi. Það er frábært að hann muni líka eftir þeim sem búa í landi með engin fjöll!! En það að sveinki sé á leiðinni þýðir líka að það er farið að nálgast jól og við fengum forsmekk af jólunum í gær þegar Gummi fór til Aarhus að sækja jólasendingu frá Digranesveginum. Hélt við myndum trillast af æsingi þegar kassarnir voru opnaðir, jú ég segi kassarnir því það dugði ekkert minna en tvo stóra kassa fyrir allt góssið. Og það mátti ekki á milli sjá hver væri æstastur að opna...Ársól stökk á pakka-kassann og við Gummi hjálpuðumst á með frostmatinn......vááááá hangikjöt súpukjöt fiskur og hákarl...ásamt kleinum og fullt af fleiru týndist upp úr kassanum og úr hinum týndi Ársól upp nammi í tonnatali og EGILS appelsín og malt...................NAMMMMMMMMM. Vorum eiginlega alveg að tapa okkur hérna. En díííí hvað þið eruð biluð þarna heima. Hvað getur maður sagt.........jú auðvitað tíu þúsund þakkir til ykkar þetta er frábær jólagjöf. Við eigum eftir að þurfa að fara í langt og strangt aðhald eftir að hafa úðað þessu í okkur yfir jólahátíðina. Í kvöld var síðan eldað kjöt í karrý, jamms kjamms og á morgun verður lifrarpylsa sem mamma kom með í nóvember. Svo við svífum á bleiku skýi hérna megin þessa dagana, en hlunkumst örugglega niður þegar kílóin verða orðin allt of mörg!!

fimmtudagur, desember 09, 2004

Hvað er meira hressandi en að vakna við þjófavörn bíl nálgrannans.... þvílíkt hressandi, sérstaklega þegar ég er eigandi bílsins.....doooooo. Gummi var að fikta eitthvað í bílnum í gærmorgun sem endaði auðvitað með ærandi hávaða sem ætlaði aldrei að hætta. Ég faldi mig inni og beið eftir að nágrannarnir kæmu hlaupandi út. En þeir hafa annað hvort verið farnir í vinnunna eða vanir þessum ólátum snemma morguns.

En shit hvað er kalt hérna, kuldinn á Íslandi bliknar í samanburði við þennan ans... kulda hérna á Fjóni. BRRRRRRR. Í minningunni er Ísland eitt af heitari löndum sem ég hef heimsótt, já fjarlægðin gerir fjöllin blá!!


miðvikudagur, desember 08, 2004

Fór aftur á hestbak í gær niðri Faaborg. Það var geggjað veður og frábært að fara þarna um. Hesturinn sem ég nota (hún Bryndís) var líka í góðu skapi svo þetta var rosa góður túr. Ársól fékk að fara heim með Louise þar sem Gummi var að kanna eitthvað byggingarsvæði með skólanum. Hann er alveg að tapa sér þessa daganna sem er nú reyndar ekkert nýtt, þar sem nú nálgast skiladag og svo próf eftir það. Dííí hvað ég er feigin að ég er ekki í neinum prófum, þetta er eitthvað sem getur alveg vanist, allavega sakna ég þess ekki mikið!! Bara ekki neitt. Á reyndar eftir að taka nokkrar einingar en ég ætla sko að finna einhvern próflausan kúrs. Fann einn kúrs sem er kenndur í 2 vikur á Sjálandi í ágúst, aldrei að vita nema að maður skelli sér á hann. Förum upp í Aarhus á morgun að sækja pakka jibbbbbííííí og fisk jibíiííííí. Það verður fiskur í matinn fram að jólum. Spurning hvað kemur upp úr kassanum frá tengdó, síðast þegar hann sendi okkur fyrir jól, þá birtist jólahangikjötið hennar Möggu og ýmislegt annað góðgæti úr kistunni þeirra!!



mánudagur, desember 06, 2004

Fínasta helgi búin

Ég fór á hestbak með honum Knud núna á laugardaginn, það var rosa fínt, mjög notarlegt að vera í síns eigins hnakki, ekki annarra manna.. Það er rosa gaman þegar maður er svona á hestbaki þá sér maður allt öðruvísi hluti en þegar maður er úti að keyra, ég sá til að mynda refagryfju, sem voru alveg full af holum eftir refi og þar voru spor eftir svona ekta rauða refi eins og meður sér í bíómyndunum. Við riðum líka framhjá dádýrum sem voru frekar gæf, við komumst ótrúlega nálægt þeim. Skemmtilegt. Dansku reiðmáti er mjög ólíkur þeim íslenska, heima er farið á fullu farti um hóla og hæðir en hérna er fetað, fetað og fetað, hleypt og fetað svo meira. Ekki að það sé slæmt að feta, en það er bara ekki eins mikið fjör. En ég á eftir að breyta þessu hjá þeim, ekki spurning.

Á sunnudaginn fórum við svo á jólamarkað við Langesö. Þar var verið að selja jólatré og ýmsan heimagerðan mat, héngu svona heimatilbúnar reyktar pylsur og kjöt í sumum básunum. Svo var hægt að kaupa osta sem bændurnir voru að gera. Namm þetta var ferlega girnilegt. Við keyptum okkur risa jólatré, ég held að við höfum verið frekar upprifin af stemmingunni þarna því við hugsuðum ekki um það hvort tréið kæmist fyrir inni hjá okkur.....en við hljótum að finna góðan stað fyrir það! Sjónvarpið verður þá bara að fá að fjúka þennan tíma sem jólatréið verður.......


föstudagur, desember 03, 2004

Á morgun segir sá lati..

...það hlýtur að vera dagurinn í dag, eða hvað.

Lítið búið að vera að gerast hérna í Odensebæ. Vinna sofa og borða þetta klassíska. Gummi er ekki búinn að fá ælupestina skemmtilegu og það sannar það bara að hann getur ákveðið ef hann ætlar ekki að verða veikur, sem hlýtur þá líka að þýða að hann getur ákveðið þegar hann verður veikur!! Djúpt ekki satt.

Annars er ekkert að gerast og ég hef ekkert að segja eiginlega orðlaus....eða andlaus. Ætla að halda saumó í kvöld og fara á hestbak með Knud á morgun. Góð byrjun á góðri helgi.

Vona að þið eigið góða helgi...