Freyja

Týnd í tölvunni

mánudagur, september 24, 2007

Við rákum féð í réttirnar í fyrsta og annan flokk......

Hýflóttar, golóttar, hyrndar, kollóttar, mórrauðar, svartar, grárysjóttar, hvítar, fjórfættar og sætar voru kindurnar sem við smöluðum inn í réttina í Bjarnarfjarðarréttina sl helgi. Mikið var líka um skeggjaða, sköllótta, síðhærða, rauðhærða, ljóshærða, stubbótta, feita, málóðra, mjóslegna, freknóttra tvífættlinga í þessum sömu réttum og mátti ekki á milli sjá af hvoru var meira af. Reyndu þessir tvífættu eftir besta megni og þori að handsama fjórfætlingana sem höfðu haldið til á hálendinu allt sumarið og því ekki vanir þessu áreiti tvífætlinganna. Sumir voru ofurhugar og köstuðu sér á eftir ferfætlingunum og héldu að þeir væri í kábbojleik en aðrir ( mér mjög tengdir) voru lafhræddir og skýldu sér bak við þá sem hugaðri voru.

Gaman að fá smá kindailm á sig þó svo að ilmurinn hafi ekki tollað lengi vegna veðurs, allir vindblásnir og hressilegir.

Skemmtileg tilbreyting úr borgarlífinu....næst verður bara að kanna hvort við Ársól getum ekki ráðið okkur sem matvinningar á einhvern sveitabæinn þegar sauðburður hefst næsta vor.

Löng og ströng vinnuvika framundan.......

miðvikudagur, september 19, 2007

Hugmyndarík stelpuskott

Feimni og óframfærni er eitthvað sem hefur fylgt tíu ára dóttur minni alla tíð. En eftir því sem hún eldist þá virðist þetta breytast smátt og smátt. Síðast núna í dag sýndi hún áræðni og frumkvæði til þess að sigrast á feimninni sem býr í henni. Eitt kvöldið í síðustu viku ætlaði hún aldrei að geta sofnað og talaði hún um að hún væri að hugsa svo mikið að þess vegna geti hún ekki sofnað. Næsta dag fór hún að segja mér frá því sem hún hefði hafði truflað hana kvöldið áður. Hana langaði að fara á leikskóla og bjóða fram aðstoð sína við að passa börnin. Hún vildi setja upp leikrit, fara í útileiki og föndra með krökkunum á hverjum föstudegi í vetur. Í dag fór hún svo í leikskólann (hringdi reyndar í mig þegar þær stóðu fyrir utan leikskólann þar sem þær þorðu ekki inn!! ) en að lokum fóru þær inn og töluðu við leikskólastjórann, fengu síðan leyfi til þess að koma næsta föstudag og leika við krakkana. Þær vinkonurnar hugrökku komu svo skelfdar heim þar sem nú voru þær svo smeykar um að krakkarnir vildu ekki leika við þær og myndu alls ekki hlýða þeim. En eftir miklar vangaveltur ákváðu þær að fara í nafnaleik með krakkana svo þær myndi læra að þekkja þau. Það verður gaman að sjá hvernig þetta á eftir að ganga hjá þessum frumkvöðlum.

fimmtudagur, september 13, 2007

Tvisvar sama dag...hvað er í gangi. Varð bara að leyfa ykkur að heyra þennan:

Jón verkfræðingur deyr og fer auðvitað upp til himna eins og allir verkfræðingar. Þegar þangað kemur leitar Pétur í nafnalistanum og segir svo:"Því miður Jón minn, þú ert ekki ekki á listanum, þú verður að fara niður.""En en, ég er verkfræðingur..." "Já sorry en þú ert ekki á listanum!" Þannig að Jón er sendur niður til helvítis.

Mánuði síðar er Guð að fara yfir nafnalistana og sér að þau mistök hafa átt sér stað að Jón verkfræðingur hafi óvart verið sendur til helvítis. Hann bjallar í Satan og biður hann um að skila nú Jóni. Satan segir strax: "Ekki séns, þú færð Jón sko ekki aftur, þín mistök." Guð er ekki sáttur og segir:"Láttu ekki svona, Jón er verkfræðingur, hann á heima á himnum með hinum og þú veist það." Þá varð Satan mikið niðri fyrir og sagði: "Sko, áður en Jón kom var ógeðslega heitt hérna, það var hraunstraumur hér um allt og brennisteinsfnykur og viðbjóður. Jón breytti þessu öllu. Núna erum viðkomin með loftræstingu, brýr, vegakerfi, flóðvarnagarða og ég veit ekki hvað og hvað, allt hannað af honum. Þetta er orðið helvíti næs hérna hjá okkur. Það er ekki séns að þú fáir hann." "Sko, Satan, þú lætur mig fá hann aftureða ég fer í mál við þig!" "Já er það og hvar þykist þú ætla að fá lögfræðinga!"

Erum búin að redda afmælismálum. Endaði með að við keyptum 26" hjól með litlu stelli, ætlum að sjá til hvort það sé passlegt, en ef ekki þá fáum við að skila því og fáum nýtt 24" þegar þau koma í búðina. Mikið er ég feginn að vera komin með lausn á þessu. Var komin með smá hnút í magann yfir þessu. Fáum líka fimleikasalinn sem við vorum búin að panta svo þetta er allt að smella.
Pétur er svakalega kátur hjá dagmömmunni sinni og í morgun þegar ég fór með hann, skundaði hann bara inn og vinkaði mér bless!! Ekkert smá mikill dugnaðarforkur. Krakkarnir þarna eru algjör krútt, eru 3 á mjög svipuðu reiki og ná ofsalega vel saman. Ein er kölluð skessan og ber nafnið með rentu, með hárstrý sem stendur allt út í loftið. Hún er sú sem ræður öllu, ráðskast með strákana fram og aftur. Í morgun fannst henni ég vera eitthvað lengi að klæða Pétur úr útifötunum, hún kom þá askvaðandi og renndi niður jakkanum og byrjaði að losa skóna hans, hihi það var ekki hægt annað en að leyfa henni þetta. Hann stóð alveg grafkyrr meðan hún brasaði þetta.
Annars er lítið að frétta af byggingarframkvæmdum annað en að Gummi hamast við að teikna og bæta og breyta. Teikningarnar verða síðan sendar inn til samþykktar. Síðan er bara að bíða og sjá hvort Reykjavíkurborg afhendi lóðirnar á tilsettum tíma. Dagsetningin er 15. október...svo þetta fer að verða spennandi. Erum búin að ákveða útlit hússins og innra skipurlag að mestu leiti!

Spennandi...

mánudagur, september 10, 2007

Rólyndis helgi að baki

Laugardagurinn fór í að leita af draumahjólinu...þar sem Ársól er að verða 10 ára eftir örfáa daga sendum við hana í heimsókn til Baldurs og Arnaldar og fórum sjálf og ætluðum að versla eitt stykki hjól....fórum á milli allra reiðhjólaverslana sem við fundum, en uppskárum ekki svo mikið sem eitt bretta. Öll 24´´ hjól virðast vera útseld í allri henni Reykjavík, já og víðar ss Selfossi. Hvað gerum við þá, vorum löngu búin að ákveða þetta og héldum bara að við gætum rennt inn í eina ekta hjólabúð og valið þar úr úrvali hjóla...nixen dixen ekki alveg staðan sem við erum í. Við fundum að vísu eytt reiðhjól sem kostaði 48.000 krónur....úffpúff finnst það aðeins of mikið.
Verðum víst að geyma þetta aðeins og finna upp á einhverju öðru snjöllu...er samt eitthvað ekki hugmyndarík þessa dagana.

Á sunnudag skruppum við Ársól og Pétur niður í bæ með strætó, hittum Eydísi og Arnald. Fengum okkur svakalega gott að borða og gáfum öndunum líka nokkrar nýbakaðar brauðsneiðar. Þeim fannst það ekki amarlegt að fá svona ilmandi nýtt brauð beint úr bakaríinu. Pétri fannst þetta líka gríðarlega spennandi og var það alveg full time job að elta hann og grípa þegar hann var líklegur til þess að fá sér sundsprett í tjörninni!!

Skemmtilegt vika framundan...svo ammæli...

þriðjudagur, september 04, 2007

Júbbbbs Strandirnar voru eins og kiðlingur orðaði votar, þokukenndar, holóttar og hreint út sagt yndislegar, sem og alltaf. Fengum að prufa allan veðurskalann sól, rigningu, þoku, vind, meiri vind og logn ásamt öllum hinum veðurfræðiorðunum sem gott er að kunna þegar maður býr á Íslandi. Gott að koma í sveitina og hlaupa um. Pésinn var mjög kátur með lífið og tók stefnuna beint niður í fjöru þegar hann hafði tækifæri til. Knúsaði Snotru og elti hanana tvo villt og galið.Og voru þeir Hommi og Nammi ekkert allt of æstir í að leyfa þessum unga herramanni að ná sér. Gæsirnar tóku á rás þegar hann kom askvaðandi á eftir þeim og voru heldur ekki á því að leyfa honum að knúsa sig. Skrýtið!! Sem sagt líf og fjör í sveitinni.