Freyja

Týnd í tölvunni

föstudagur, maí 28, 2004

Fiskiferð til Aarhus

Við fórum og náðum í fiskinn sem Pési tengdó sendi okkur, til Aarhus í gær. Gátum auðvitað ekki sleppt tækifærinu þar sem við vorum komin til Aarhus að fá okkur pizzu á Pizza hut. Namm hvað þetta var gott en vá líka hvað þetta er drullu dýrt. Eins gott að pizza hut sé ekki hérna hjá okkur í Odense.

Ég er líka komin í helgarfrí aftur og nú er Gummi líka í helgarfríi....skringilegt að sjá hann aftur. Hann hefur verið að koma heim seint á kvöldin og farinn eldsnemma á morgnanna, svo ég hef ekki séð svo mikið af honum síðustu vikurnar. En þau (grúbban hans) voru að skila verkefninu sínu í dag. Svo nú þurfa þau bara að verja hana í júní.

Er að bíða eftir að Eva Villa láti sjá sig, hún er stödd héna í Odense og ætlar að kíkja á eftir. Gaman að sjá framan í hana.



sunnudagur, maí 23, 2004

Köbenhavn klikkar ekki....

Auðvitað kemur maður ósofinn og genginn upp að hnjám frá höfuðstaðnum. Svefnleysið stafar helst af því að hann litli sæti frændi er í svefnátaki og er ekkert endilega að vilja sofa alla nóttina og fannst það feyki góð hugmynd að vakna um 2 leitið og halda smá konsert fyrir okkur hin.

Við Ársól fórum til Köben eftir klassefest hjá bekknum hennar Ársólar. Vorum komnar um 10 leitið og þá biðu okkar ekki slæmar móttökur. Þar voru samankomnar Helga systir, Vala vinkona og Lilja systir hennar. Vala og Lilja komu færandi hendi og leystu okkur Ársól út með gjöfum. Ársól fékk risa bangsa og ég fékk fullan poka af nammi og pela af íslensku brennivíni, en slíkur eðaldrykkur fæst ekki hér á landi.

Á fimmtudag komu stelpurnar til Helgu og við fórum öll í siglingu um síki Kaupmannahafnar. Þvínæst fórum við í TÍVOLÍ frábært gaman, gátum sko skemmt okkur þar heillengi og fórum ekki heim fyrr en um 8 leitið, eftir að hafa kvatt Völu og Lilju sem voru að halda í reisu um Evrópu. Vá hvað það varður gaman hjá þeim.

Á föstudagsmorguninn tókum við daginn snemma (ekki hægt annað þegar Fjalar er nálægt) og vorum mættar í Fields sem er stærsta verslunarmiðstöð í Skandinavíu, vááá ég þarf alveg að skreppa aftur þangað með þér Helga. En Ársól fékk pils og bol og bikiní og ég fékk pils og Fjalar fékk rosa flotta skó. KAupa kaupa gaman gaman.

Um tvö tókum við svo á móti Björgu, Aroni og Birgittu sem tókst eftir að þau voru búin að villast smá (eiginlega bara mikið). Fórum með þeim í bæinn og skoðuðum drottningarhölluna og alla hina flottu staðina í miðbænum. Það var frekar þreytt fólk sem lagði af stað til Odense. Stelpurnar steinsofnuðu um leið og sváfu alla leið.

Í gær fórum við í dýragarðinn hérna og í dag höfum við slappað af, vorum upp í kolonihave og ég var að mála og Björg varð flekkótt. Rauð-flekkótt. Mjög flott.

mánudagur, maí 17, 2004

Til hamingju með daginn stóri bróðir.

Vona að þú eigir skemmtilegan afmælisdag.

sunnudagur, maí 16, 2004

hlessa skessa
Ég er alveg ótrúlega hissa að Ísland hafi ekki unnið í gær. Já eða þannig. Var nú eiginlega frekar hissa að við hefðum fengið eitthvað stig. Ótrúlega slappt lag sem hann Jónsi fór með. En mér fannst hann samt syngja það alveg fínt.

Hérna var auðvitað júróvisíon stemmingin í hámarki og við vorum svo sannarlega á þjóðlegu nótunum, enda júróvision okkur í blóð borið. Borðuðum hangiket, með kartöflum, grænum baunum flatkökum og uppstúf, þessu var rennt niður með ísköldum odense bjór að sjálfsögðu. Reyndar byrjuðum við á forrétti sem var sannkallaður ástarréttur, jarðaber hjúpuð í súkkulaði namm.

Eftir spennuþrungin andartök lá það ljóst fyrir að Ísland kæmist ekki í fyrsta sætið. Daaa. Þá var skipt um gír og Ingvi tók gítarinn við góðar undirtektir og það var sungið fram á rauða nótt. Var reyndar farið að birta þegar gestirnir fóru.

föstudagur, maí 14, 2004

Hjúkket þau eru gift.

Krónprins Frikki og Mæja prinsessa, voru að gifta sig við mikinn viðbúnað hérna í dag. Ég var alveg á því að horfa ekki á þetta...........en hvað er ég búin að vera að gera í dag. júbbs þegar ég kom heim úr vinnunni þá kveikti ég auðvitað á sjónvarpinnu og horfði á allt flotta kóngafólkið og flotta fólkið koma í giftinguna, ekkert smá flottir kjólar mar. Það er búið að vera linnulaus umræða um brúðkaupið í marga mánuði og núna síðustu viku er ekki búið að sýna annað í sjónvarpinu nema efni sem tengist brúðkaupinu á einn eða annan hátt.

Það var líka flaggað fyrir öðru í dag, því Ingvi á nefnilega ammæli, til hamingju með ammælið gamli. Fékk ammælisvöfflur og köku áðan. namm namm.

Á fimmtudag kom bekkurinn hennar Ársólar í heimsókn upp í koloni have, þetta voru 23 stykki og þetta gekk alveg ótrúlega vel. Fórum í fullt af leikjum og skemmtum okkur vel. Nokkrum strákum tókst að bleyta sig með garðslöngunni og annar datt í tjörnina.....bara svona venjulegt.

Á morgun ætlum við að vera á þjóðlega nótunum og borða hangikjöt og uppstúf með nýbökuðu flatbrauði ala svalagústi. Namm namm. Eftir það ætlum við síðan að horfa á júróvísjón. Namm hlakka til að borða jólahangikjötið hennar tengdamömmu.

þriðjudagur, maí 11, 2004

Dagurinn í dag

Jábbs bara búinn að vera fínn dagur. Fullt að gera í vinnunni og fullt af fólki. Rannsóknarstofan sem ég er á er mjög lítil, eða allavega virðist vera að þegar allt fólkið er að vinna við mismunandi verkefni, inn í sama herberginu þá verður ekki mikið pláss. Eins gott að maður sé nú ekki feitari því þá væri ekkert pláss þarna inni.

Krakkarnir í bekknum hennar Ársólar ætla að fara í gönguferð á fimmtudag og kennarinn spurði hvort þau mættu fara upp í kolonihave. Svo þangað ætlar Ársól að leiða þau á fimmtudaginn.

Gummi er svo svakalega ánægður með nýju fínu þvottavélina að hann er bara bókstaflega alltaf að þvo. Hann er meira að segja farinn að tæma skápana og þvo það sem er þar inni..... látum á það reyna hversu lengi þetta varir, en er á meðan er....

Var áðan að kaupa smá málningarprufu til þess að mála inni í kolonihave. Ætlum að reyna að gera hann aðeins ljósari, ætli ég fari ekki í það um helgina, svona á milli þess sem ég verð með hugann við giftinguna.....

mánudagur, maí 10, 2004

Löng og góð helgi að baki og nokkrir dagar í næstu helgi.

Já síðasta helgi var rosa fín. Við fengum heimsókn frá Guðbjörgu og Vigni á laugardag og borðuðum með þeim og Melkorku og Frikka grillmat. Namm namm. Ársól fékk að vera í pössun hjá henni uppáhalds Heiðu og þeim fannst það held ég bara mjög skemmtilegt. Kvöldið var mjög skrautlegt og ég læt duga að segja að Frikki sofnaði fyrstur ég önnur og hinir fóru á barinn. Dagurinn eftir var ekki eins skemmtilegur og sá fyrri, slatti af köllum að spila á trommur í hausnum á mér og fleirum. Ekki gaman. Svo fóru líka afleiðingar kvöldsins að koma í ljós. Ég fann jakka og peysu sem krakkarnir komu með heim og Gummi fann ekki veskið sitt. Hmmmm ekkert allt of sniðugt. Jakkinn komst til eiganda síns þar sem lyklarnir voru í vasanum og Gummi fann veskið í gærkvöldi út á bar. Svo þetta var bara góður endir.

Á sunnudagskvöld fórum við ásamt afganginum af stórfjölskyldunni þeim Sigurrós Ingva og Nökkva, Þóru og Gústa upp í koloni have og áttum notarlega kvöldstund með þeim.

Við keyptum okkur líka þessa ofurflottu þvottavél á laugardag. Ekkert smá þægilegt bara hægt að tölvustýra henni og programma. Nú verð ég alltaf að þvo.......

föstudagur, maí 07, 2004

Stóri baðdagurinn er í dag. Veit nú ekki alveg tilefnið en það er allavega frí í dag. Það er svo notarlegt með vorin að fyrir utan að það er allt að vakna úr dvala, það er svo mikið að frídögum sem skemma ekki fyrir. Við Ársól ætlum nú ekki að gera nein stórverk í dag annað en að ég er búin að taka til og hún er í mömmó með félögunum, Emilíu og Nökkva. 'otrúlegt hvað þau endast í þessu mömmó dæmi.

Í gær var vikulegt skokkkvöld en þar sem ég var alveg út úr heiminum og hélt að það væri föst. kvöld þá vorum við bara í bænum og fórum inn á veitingastað sem heitir Mona Rosa, og borðuðum rosalega fínan mat. Það var búið að þurrka úr mér að það væri fimmtudagur, samt á leiðinni heim var ég að pæla í því hvað ég ætti að vera gera....og viti menn, mitt í þessum hugsunum þá hringdi Þóra og var að bíða eftir að ég kæmi út að labba......................arrrrrrg þoli ekki þegar maður er bara alveg úti á túni. En við skelltum okkur í rómantíska kvöldgöngu, ég komst reyndar eiginlega ekkert úr sporunum því ég var svo södd. Púff.

Á morgun fáum við gesti, brottfluttir rasskarar þau Guðbjörg og Vignir ætla að koma og gista eina nótt. Það á auðvitað að grilla og hafa það gott. Það verður gaman að sjá þau aftur.

þriðjudagur, maí 04, 2004

Já vá ég er nú frekar utan við mig hérna. Það er sko búið að skýra litla frænda minn, hann heitir Arnaldur. Fallegt nafn á fallegan strák. Til hamingju með nafnið litli frændi.

Skringilegt andrúmsloft, vægast sagt.

Já það var mjög skringilegt andrúmsloft í vinnunni hjá mér í dag. Við vorum að fá fyrstu fínnáls biopsiurnar okkar, mættum upp á mammary deild þar sem konur eru rannsakaðar og það er tekið úr þeim brjóstakrabbameinssýni. Konurnar fá jafnframt að vita það þarna á þessum tímapunkti að þær gætu verið með krabbamein. Þegar við komum inn hjá þeirri fyrstu var hún skönnuð og fékk að vita að þetta væri ekki krabbamein og ´það var auðvitað þvílíkt móment, hún og maðurinn hennar fóru að gráta og ég var næstum farin að gráta með þeim. Fannst þetta vera nú heldur of mikið fyrir mig. En frábærar fréttir fyrir sjúklinginn og við fengum ekkert sýni í þetta sinnið. Púff hvað þetta er erfitt að horfa upp á fólk sem er að bíða eftir niðurstöðu, og við að bíða eftir að geta fengið sýni úr henni ef hún er jákvæð. Leið eins og hrægammi, æjjj þið vitið hvað ég meina. Ég er fegin að vinna ekki mikið nálægt sjúklingum því þetta tekur ekkert smá á. Þá er nú betra að hýrast inn á litla labbinu sínu og sulla saman einhverju sniðugu. Í lok dags fengum við svo sýni, við Mads löbbuðum hálf lúpuleg inn á okkar rannsókn eftir tilfinningalega erfiðan vinnudag. En svo er bara að fara að skoða þetta sýni og prófa það. Gaman gaman.

Ársól nennti ekkert að koma með mér heim svo hún fékk að fara heim með Birgittu að leika, þegar við hittum hana í Fötex.

mánudagur, maí 03, 2004

Legoland

Við Ársól og Sigurrós og Nökkvi skelltum okkur í Legoland í gær. Vá gaman gaman loksins gat Ársól sýnt mér allt í Legolandi því hún hafði farið áður, með Natalíu og Davíð. Við fórum í fullt af skemmtilegum tækjum, borðuðum risa skammta af mat og höfðum það ferlega huggulegt. Lögðum af stað up úr níu vááá ekkert smá snemma á sunn. morgni. en ég held að Nökkvi hafi verið vaknaður kl 6. Svo það var ekki eftir neinu að bíða. Þegar við komum á staðinn byrjaði auðvitað að rigna og í kjölfarið þrumur og eldingar og svo enn meira rigning. En ekkert mál fyrir æsta Íslandinga sem ætla sko að skemmta sér í Legolandi, það var bara keypt regnslár fyrir þá sem þurftu og það passaði til, því það hætti snögglega að rigna og sólin sýndi á sér sína bestu hlið. Ahhhh hjúkket. Við Nökkvi hetjurnar fórum í svaka rússibana, sem fór beint niður vúfff, Ársól og Sigurrós horfðu á...... báðar jafn hugrakkar. Eftir frábæran dag í garðinum brunuðum við heim.

Er að vinna eins og kannski sést.......mjög dugleg. Er bara að bíða smá, held áfram á eftir. Stutt vinnuvika því það er frí á föstudaginn, store bededag. Þann dag notum við auðvitað til þess að biðja stórra bæna. Eða hvað...