Freyja

Týnd í tölvunni

sunnudagur, janúar 27, 2008

Suma daga fer maður öfugumegin fram úr rúminu....

....en aðra daga fer maður kolvitlaust úr rúminu og allt of snemma. Allt þetta gerðist hjá mér núna í morgunsárið!! Klukkan hringdi og sýndi 6:20, ég á lappir, bursta, skjálfa, klæða, skjálfa meira, borða, pissa, skjálfa enn meir, finna lykla, nesti og síma hlaupa skjálfandi út í bíl og setja miðstöðina í botn og bruna sem leið liggur niður í 101 Reykjavík....á miðri Kringlumýrarbrautinni er mér ekki farið að standa á sama, engir bílar á ferli og ég enn skjálfandi....lít á klukkuna 5:45 úfffff helvítis klukkuskrattinn hefur fengið rugluna og ákveðið að vekja mig klukkutíma fyrir eðlilegan fótferðatíma....bölvaði hressilega og viti menn mér hitnaði ögn við það. Garðurinn er alltaf mjög skuggalegur snemma á morgnanna og núna var hann ennþá skugglegri er því farin að þrá að húsið fyllist af fólki.

Fer í rúmið klukkan níu í kvöld!!

fimmtudagur, janúar 24, 2008

Var óþarflega svartsýn í síðastu færslu...því ótrúlegir hlutir gerðust á þriðjudaginn. Rúnar gröfukall mætti á svæðið og var tilbúinn að grafa um leið og gaurarnir frá Reykjavíkurborg luku sér af að staðsetja húsið. Þurfti bara rétta að rista mosann ofan af jörðinn og þá var "holan" tilbúin!! Þá er núna bara að bíða eftir að hætti að snjóa svo hægt verði að setja nokkrar eðal steinvölur í botninn og fá Þorra þjappara til að gera gott undirlag fyrir kotið!! Svo nú setjum við aftur í bíðagírinn og hinkrum eftir því að veðrið klári þetta óveður og sendi okkur sól og blíðu!

Pésinn tók upp á því að vakna kl 12 í nótt og vaka til 3 og glaðvaknaði síðan þegar ég fór á fætur kl 6. Vááá hvað hann var í miklu banastuði drengurinn. En mamman þarf aðeins meira en 3 klst svefn svo hún funkeri!! Ég pant rotast í sófanum í kvöld!

þar til síðar Freyja

mánudagur, janúar 21, 2008

Allir klárir með rekurnar....

......nú er bara að hóa saman mannskap og ruppa þessum kofa upp. Fengum loksins byggingarleyfi á miðvikudag sem ætti auðvitað að útleggjast að við værum komin með leyfi til að hefjast handa...en nei nei eigum eftir að fá starfsmenn Reykjavíkurborgar til þess að fá sér rúnt upp í Úlfarsárdal og staðsetja lóðina nákvæmlega. Sá prócess gæti tekið allt upp undir 2 vikur miðað við fyrri vinnuhraða!! Svo nú er að setja í andarólegagírinn og vera ekkert að æsa sig upp af óþarfa, þetta fer alveg að skella á.

Lítið fer fyrir öðrum málum innan fjölskyldunnar, allir stilltir og prúðir að vanda. Ársól fer í afmæli tvisvar í viku og reynir að læra þess á milli. Ég set í uppþvottavél, þvottavél og þurrkara og reyni þess á milli að fara í vinnuna. Pésinn hittir Gunnuna sína fjóra daga í viku og er afskaplega sáttur við lífið og tilveruna. Gumminn kemur í mat tvisvar í viku og vinnur þess á milli. Svo það er ekki hægt að segja nema að við höfum það ansi fínt.

Þar til eitthvað fer að gerast í byggingarmálum

kv Freyja

þriðjudagur, janúar 08, 2008

Daginn daginn

Þá eru lengstu og dimmustu mánuðirnir framundan, janúar og febrúar. Þrátt fyrir að sól sé farin að hækka agnarögn með hverjum deginum þá finnst mér þessir mánuðir alltaf vera hálf blautir og hráslagalegir í borg óttans. Það er líka erfitt að koma rútínu á liðið ss vakna á morgnana, fara snemma í bólið og læra heima. Þetta er alltaf mikil átök eftir ljúfa jólahátíð. Við héldum jólin hátíðleg hjá mömmu og pabba og að vanda var það svakalega huggulegt. Húsið skreytt hátt og lágt, eðaljólamatur etinn á aðfangadag og alla hina dagana. Veðrið í Hornafirðinum var frábært stilla og frost, við krakkarnir fórum út að renna við hvert tækifæri. Pésinn orðinn svellkaldur á sleðanum og brunar niður bröttubrekku í Stórhólnum, fékk reyndar líka nokkrar flugferðir og endaði oftar en ekki með nefið beint í snjóskafl. En hann er jaxl og harkaði þetta af sér til að geta farið aðra ferð. Hann fékk líka þann lúxus að vera dreginn upp aftur, systir hans nýtur ekki sömu forréttinda og var því að klýfa hólinn sjálf ásamt mömmunni. Fórum örugglega meira en 100 ferðir!!

Gumminn vann bara og vann yfir jólin, er komin í gírinn og því sést hann enn sjaldnar á heimilinu. Nú styttist óðum í að fyrsta skóflustungan verði tekin....ég veit að ég er búin að segja þetta oft, en nú held ég að þetta fari alveg að koma....bara lige om lidt.

Gærkvöldið var það fyrsta síðan við komum að austan sem Pésinn gat sofnað fyrir sprengingum. Það hafa verið stöðugar sprengingar í Árbænum undanfarin kvöld og hetjan mín hættir þá að vera hetja og gerist vælukjói. Nema í gærkvöldi, úfff hvað það var ljúft. Gat lesið í ró og næði fyrir sólina og farið í sturtu án þess að hafa allt crúið með!! lúxus.

Ég er viss um að árið verði gott byggingarár og var áramótaheitið að komast inn í höllina á árinu 2008!!

Hafið það gott í bloggheimum