Honum syni mínum er ekki fisjað saman
Hann er nokkuð skondinn strákur sem þýtur óðfluga inn á "terribletwo" aldurinn góðkunna. Kynntist þessum tegund af tveggja ára aldri í Danmörkinni af litla frænda mínum (já eða foreldrum hans). Þessi aldur er svo skemmtilegur þar sem þau eru að feta sig áfram í sjálfstæðisbaráttunni, má ekki leiða, hjálpa eða aðstoða á neinn hátt. Í gær fórum við í heimsókn til vinar hans sem er litlu eldri en mun skynsamari. Fórum í smá göngu og á einum stað komum við að mjög bröttum grasbakka. Sá skynsamari fór þar sem bakkinn var ekki eins hár og fikraði sig niður brekkuna afturábak, en minn gaur tók stímið beint niður mesta brattann, flaug að sjálfsögðu beint á hausinn og kútveltist niður alla brekkuna. Varð þó ekki meint af flugferðinni og þaut eins og eldibrandur í átt að tjörninni þar sem hann ætlaði að fanga gæsirnar sem voru þar á vappi en varaði sig ekki á tjarnarbakkanum svo minnstu munaði að þetta yrði sundferð hjá okkur!
Í gærkvöldi þegar við sátum og vorum að ljúka við kvöldmatinn skildi ég ekkert hvað hafði orðið um hnífapörin hans, fann þau hvergi hvernig sem ég leitaði. Var hinsvegar fullviss um að hann hefði ekki farið frá borðinu í millitíðinni. Kom í ljós þegar ég ætlaði að gefa honum meiri mjólk hvar hann hafði falið áhöldin....hringlaði óvenjulega í mjólkurfernunni....
Eigið góða helgi