Freyja

Týnd í tölvunni

föstudagur, febrúar 22, 2008

Honum syni mínum er ekki fisjað saman

Hann er nokkuð skondinn strákur sem þýtur óðfluga inn á "terribletwo" aldurinn góðkunna. Kynntist þessum tegund af tveggja ára aldri í Danmörkinni af litla frænda mínum (já eða foreldrum hans). Þessi aldur er svo skemmtilegur þar sem þau eru að feta sig áfram í sjálfstæðisbaráttunni, má ekki leiða, hjálpa eða aðstoða á neinn hátt. Í gær fórum við í heimsókn til vinar hans sem er litlu eldri en mun skynsamari. Fórum í smá göngu og á einum stað komum við að mjög bröttum grasbakka. Sá skynsamari fór þar sem bakkinn var ekki eins hár og fikraði sig niður brekkuna afturábak, en minn gaur tók stímið beint niður mesta brattann, flaug að sjálfsögðu beint á hausinn og kútveltist niður alla brekkuna. Varð þó ekki meint af flugferðinni og þaut eins og eldibrandur í átt að tjörninni þar sem hann ætlaði að fanga gæsirnar sem voru þar á vappi en varaði sig ekki á tjarnarbakkanum svo minnstu munaði að þetta yrði sundferð hjá okkur!

Í gærkvöldi þegar við sátum og vorum að ljúka við kvöldmatinn skildi ég ekkert hvað hafði orðið um hnífapörin hans, fann þau hvergi hvernig sem ég leitaði. Var hinsvegar fullviss um að hann hefði ekki farið frá borðinu í millitíðinni. Kom í ljós þegar ég ætlaði að gefa honum meiri mjólk hvar hann hafði falið áhöldin....hringlaði óvenjulega í mjólkurfernunni....

Eigið góða helgi

þriðjudagur, febrúar 19, 2008

Síðan síðast þá hefur ýmislegt gengið á....ég fór með bænirnar og viti menn það fór að hlýna. Já hlýna svo um munaði, með úrhelli og látum. Svo miklum látum að sökklarnir, sem loksins voru komnir á sinn stað, fylltust af regnvatni. Vatnselgurinn var svo mikill að sökklarnir flutu nánast af stað niður í dal!! Það verður bið á því að það verði haldin önnur bænastund heima hjá mér.

...gleymdi að kaupa mér lottómiða.

fimmtudagur, febrúar 07, 2008

hvur skrattinn er kominn í veðrið?

Ég sem elska mikinn snjó þá er hann ekki að gera góða hluti í ár. Allar byggingarframkvæmdir liggja niðri sökum veðurs....sökklarnir áttu að vera settir upp í dag og einingarnar eru farnar í framleiðslu. Setur ágætisstrik í reikninginn sem og að bankinn okkar er ekki að gera góða hluti. Þeir liggja á fjármunum sínum eins og ormur á gulli og vilja að við gefum hjartað úr okkur í skiptum fyrir örfáar millur.....leiðindasjóður og fýlupúkar. Ætli þýði nokkuð að spjalla við þennan í röndóttufötunum, ja eða þennan bleika.

Nei í alvöru, hvað gerir fólk eiginlega. Þetta er algjör klikkun. Við erum byrjuð á framkvæmdum komin með lánsloforð í hendurnar uppá 40 millur frá bankastofnun og nú vilja þeir ekki lána okkur....senda manni bara löngutöng. Hvernig hefði þetta verið ef við hefðum verið að kaupa tilbúið einbýlishús, fengið lánsloforð, hefðu þeir getað komið 6 mánuðum seinna og krafist þess að við færum í greiðslumat.

Ætla að spila í Lottó á laugardaginn og fara með bænirnar....kannski hlustar hann þarna uppi.

kveð að sinnu úr ófærð og hreti Freyja