Freyja

Týnd í tölvunni

sunnudagur, desember 11, 2005

Nú mega jólin koma

Búin að fara jólaferðina til Aarhus og ná í jólamatinn sem kom siglandi frá Íslandi. Og það er eins og ég segi að tengdaforeldrar mínir já og foreldrar mínir þau halda að ég og mín fjölskylda búum í svörtustu Afríku og séum með 16 hungruð börn á framfæri, slíkar er sendingarnar alltaf. Að þessu sinni komu tveir risa kassar hvor örugglega rúm 15 kg og þurftu bátsverjar að leggja lið við flutninga úr bátnum. Kannski var það vegna þess að við vorum tvær á háhæluðum hælum og pilsum voru ekkert allt of borubrattar að ganga með kassana niður skipa-stigann (sem heitir örugglega eitthvað annað á sjóara máli) sem vaggaði og hristist við hvert fótmál. Þessar elskur báru kassana alla leið fyrir okkur og voru ekkert smá herralegir, eitthvað annað en það sem maður á að venjast!!

Upp úr jólakössunum komu heilu kjötskrokkarnir, orabaunadósir, appelsín, malt og fleira góðgæti, við gætum örugglega fætt heilt þorp í Afríku í hálft ár með þessum veitingum. Ætli sé ekki hagkvæmast fyrir alla aðila ef við færum nú að pilla okkur upp til Íslands svo fólk þurfi ekki að halda okkur uppi hérna úti.

Annars er allt í fínu róli hérna þrátt fyrir að bloggarinn sé ansi latur á köflum...en það er bara svo mikið að gera í smákökubakstri og öðru skemmtilegu. Það var neyðarástand hérna í gærmorgun þegar smákökuuppskriftirnar fundust hvergi. Endaði með því að við ræstum bakarameistarann hana mömmu eldsnemma og fengum uppskriftirnar lesnar upp í gengum símann ásamt leiðbeiningum hvernig ætti nú að fara að þessu öllu. Og viti menn það er búið að baka 4 sortir, eiginlega má segja að þær séu 14 þar sem hver og ein kaka í hverri tegund eru mjög ólíkar og mætti halda að þær séu ekki gerðar úr sömu uppskriftinni, er ekki alveg búin að ná tökum á bakaratækninni-það hlýtur að koma!

Erum líka farnar að jólapunta smá, bara svona til að fá stemminguna í húsið. Er reyndar alltaf venjan að skreyta allt hérna á þorláksmessu eða 22. des en nú er bara ekki hægt að draga það lengur og skrautið laumast smá saman hérna upp á veggina. Fyrsti jólamaðurinn kemur svo í nótt og ætli hann laumi ekki einhverju skemmtilegu í skóinn hjá yngra fólkinu, þætti það ekki ólíkt honum. Ársól er reyndar farin að spekulera mikið í þessu hvort það séum við sem sjáum um þessi mál og það er eitthvað fátt um svör frá foreldrunum þegar þessu er klínt upp á þá. Ekki vissi ég að það væri ekki jóli sem kæmi í heimsókn á gluggann minn fyrr en ég var orðin 11 ára, og Helga sys þegar hún var 15 ára...hehe hún er svo auðtrúa, auðvelt að plata hana greyið.

Ætla að fara að elda...í kvöld verður á borðum alíslenskt lambakjöt með karrísósu og grjónum, nammmm.

0 Ummæli:

Skrifa ummæli

Gerast áskrifandi að Birta ummæli [Atom]

<< Heim