Stóra stelpan okkar farin i skólaferð og kemur ekki fyrr en á miðvikudag heim aftur. Í gær pakkaði hún öllum þeim hlutum sem henni fannst nauðsynlegir fyrir þetta ferðalag, sem og áður þá gat hún ekki valið hvorn bangsann hún ætti að taka með sér svo þeir fengu báðir að fara með. ég náði að stoppa hana áður en hún setti sjötta skóparið ofan í töskuna, fannst það fulllangt gengið. Hún var komin með strigaskó, töflur, klipp-klapp skó, stígvél, hlýja ullarinniskó og ætlaði að fara að setja eina aukaskó niður þegar ég skarst í leikinn. Og hún er ekki einu sinni orðin níu ára.
Ég og Láki vorum næstum í allan dag upp í garði að taka til og ditta, hann lá nú mest allan tímann í vagninum sínum og lét mig vinna verkin, en það verður eflaust ekki langt þar til hann verður liðtækur í garðinum. Annars er búið að fá vegabréf fyrir pattann og kallast hann þar Drengur Pétursson.....hmmmm eitthvað bogið við þetta. En svona verður þetta víst þar til foreldrar hans drattast til þess að láta skíra peyjann. Já og ef við drögum það of lengi kemur hann til með að heita Christian eða Frederik!! Það er danska ríkið sem ákveður það, svo ætli við drífum ekki í þessum með haustinu.
0 Ummæli:
Skrifa ummæli
Gerast áskrifandi að Birta ummæli [Atom]
<< Heim